Aðfangadagur

Frekar rólegur, fór með Jonna að klára fatakaup og aðeins að klára innkaup..

Elduðum svo í óvenju miklum rólegheitum.. graflaxinn fínn og kalkúnninn fullkominn. Höfðum ekki lyst á eftirréttinum.

En hvert slysið á fætur öðru með rauðvínin, fyrsta fullkomlega ónýtt (Valsotillo), næsta með ónýtan tappa sem molnaði allur niður en mögulega ekki alveg ónýtt, Muga (2009) var frekar skrýtið, en síðustu tvö sluppu.

En tímanna tákn að við Iðunn þurftum að „suða“ um að fá að opna pakkana, strákunum lá ekkert á, máttu eiginlega ekkert vera að þessu.

Skata hjá Öggu

Fórum í árlega skötuveislu hjá Öggu systur minni… held að Iðunn hlakki ekki síður til hennar en jólanna. Graflax og síld í forrétt, skata, saltfiskur, plokkfiskur og meðlæti.. sérstaklega nýbakað brauð.

Bjór og hvítvín, nokkrir snafsar, meiri bjór og kannski aðeins of margir snafsar.

Röltum aðeins niður Laugaveginn, kláruðum nokkrar gjafir og enn meiri bjór á Celtic Cross.. aftur til Öggu & Magga í einn bjór að lokum.

Sauð síðasta hangikjötslærið um nóttina, kjöthitamælirinn bilaði og þurfti að vaka til hálf fimm.

 

Jólaboð

Mættum í jólaboð hjá Þórhildi (frænku Iðunnar) og Eiríki.. Sylvía kom með okkur og óneitanlega gaman að hitta þennan hluta ættarinnar, sambandið við þau hefur einhvern veginn ekki verið eins mikið síðustu árin og áður.

Stundum erfitt fyrir mig að átta sig á fjölskyldutengslunum en bæði Iðunn og Sylvía voru með sitt nokkuð á hreinu.

Skemmtileg íbúð sem þau eru flutt í og frábært útsýni.

Og ekki spilltu veitingarnar, þetta var alvöru alla leið.

Hótel 101

Fórum með Jóhönnu & Jóni og Friðbirni & Ingu á Hótel 101.. Fínasta þjónusta, en salurinn ekki sá besti, glymur mikið og eiginlega öll samtöl í salnum bergmála. Humarsúpan og meðfylgjandi hvítvín fyrsta flokks, en kálfasteikin minna spennandi.. kálfasteik í sjálfu sér frekar hlutlaust og óspennandi kjöt, en aðallega saknaði ég trufflusveppanna.. sem voru eiginlega ástæðan fyrir því að ég valdi kálfasteik frekar en saltfisk. Eftirréttur og vín svo fyrsta flokks.

Þaðan á Mikkeller barinn, mikið af skemmtilegum bjórum, en svo kom að því að ég saknaði þess að fá ekki „venjulegan“ bjór.

En hittum fullt af skemmtilegu fólki á barnum..

Aftur, frábært að hafa svona bari eins og Skúla, Micro og Mikkeller… en þarf þetta að vera svona andsk.. dýrt??

Laufabrauð

Fjölskyldulaufabrauðið var hjá Gunnu & Kidda þetta árið, en við Iðunn mættum frekar seint vegna laxareikninga á Einifelli, eiginlega voru þau búin að steikja allt laufabrauðið þegar við mættum. En við náðum í slatta af alvöru veitingum…

Viktor var sá eini sem mætti fyrir hönd fjölskyldunnar en stóð sig víst nokkuð vel.

Einifell, lax og reykur

Það er farin að verða fínasta hefð að við Iðunn mætum eina helgi á Einifell fyrir jólin og reynum að létta undir við laxareikningar. Þetta er að mestu yfirskin yfir hefðbundna átveislu á Einifelli með einum til tveimur drykkjum til hliðar.

Reyndar vorum við óvenju léleg við áfengið þessa helgina, held að við höfum komið með meira en helminginn heim af því sem við mættum með. Annað hvort erum við orðin svona léleg í drykkjunni. Eða mætum með allt of mikið. Eða bæði..

En laxinn var saltaður á föstudagskvöldi, farið með í reyk seinni partinn og kveikt upp í um fjögurleytið. Steini þurfti reyndar að kveikja upp aftur þegar leið á kvöldið, en að öðru leyti var nýr reykofn að standa sig.

Sunnudagurinn fór í að sækja laxinn og pakka inn. Við vorum reyndar á leið snemma í bæinn en Sísú & Þór kíktu og kláruðu innpökunina.

Auður & Steini mættu eða veitingar á föstudagskvöldi, osta, pylsur, Foie gras og brauð.

Seinni part laugardags gripum við grafna gæsabringu og grilluðum bacon og fetaost.

Og um kvöldið, eftir gufu, elduðum við krónhjartarfillet, sem fer í sögubækurnar, brúnuð smjör, epla- trönuberjasósa – kartöflur og grænar baunir með sítrónu.

En, entumst óvenju stutt bæði kvöldin, sem var svo aftur vel þegið daginn eftir.

 

 

 

Jólamatur hjá Brynju

Árlegt jólaboð í þetta sinn hjá Brynju & Óskari.. Jim & Svanhildur mættu bæði, Halli & Steinunn, Alli og Kristín og Sveinn..

Mjög skemmtilegt kvöld og maturinn alveg eftir væntingum hjá þessum úrvalskokkum.. afrískt þema, hreindýrapaté að narta í með frágangi, hörpudiskur með appelsínu gráðostasósu í forrétt, eþíópískar kartöflur, rækjur, marókanskur kjúklingur, kúskús salat, salat, lambaréttur – all í aðalrétt og eftirrétturinn frábær – en man ekki hvað hann heitir.

En skemmtilegur hópurinn kannski enn meira virði.

Julefrokost 2

Fékk kannski aðeins of mikið af snöfsum þegar leið á kvöldið..