Akureyri, Græni hatturinn

Frí í dag, stutt viðtal í Virkum morgnum á Rás 2 þar sem ég þurfti að velja „föstudagslummuna“.. lag sem allir þekkja og kemur mér í „stuð“. Ósamrýmanlegar kröfur en á endanum datt Housemartins lagið „Happy hour“ inn.

Bíllinn tæpur þannig að við leigðum bíl hjá Óskari í ProCar sem reyndist vel. Gummi var lasinn og gat notað flugmiða, Assi & Stína voru farin norður á rjúpu. Iðunn var með löngu ákveðinn fyrirlestur eftir hádegið og við Helgi keyrðum norður.

Mættum á gistiheimilið Hrafninn, mjög flott aðstaða… og þaðan á Græna hattinn í „sándtékK“. Mjög fínar græjur og fyrsta flokks hljóðmaður – sem skilaði sér í alvöru sviðs“sándi“.

Fórum og fengum okkur smáréttii á Strikinu og svo í smá slökun áður en við röltum upp á Græna hatt.

Helgi og hljóðfæraleikararanir byrjuðu, virklega gaman að spila með þeim einu sinni enn, sennilega aldrei verið betri… og ekki spillti „eðal“ hljómur í salnum.

Við tókum nokkuð langt prógram, Gummi var sárlasinn, en þoldi ekki að við værum að vorkenna honum og bað okkur „pent“ að vera ekki með þetta dómsdags röfl. Hann spilaði hátt í tvo tíma án þess að missa út takt, ótrúlegur.

Annars gekk spilamennskan nokkuð vel, einhverjir smá hnökrar í einstaka lagi, en ég held að það hafi verið aukaatriði og fyrir utan eitt lagið ekki margir tekið eftir – flest lögin voru að minnsta kosti í góðum gír og við skemmtum okkur „konunglega“ – og gott ef einhverjir áhorfendur voru ekki bara þokkalega sáttir.

Eftir hljómleikana voru flestir þreyttir, Gummi lasinn, Helgi að byrja að verða lasinn, Assi búinn að vera á rjúpu síðan snemma um morguninn.

Við Iðunn enduðum á pöbbarölti (eða pöbbrölti) með Díönu (sem tók fullt af myndum) og Sigrúnu. Sátum góða stund á Götubarnum í frábærri aðstöðu fyrir þá sem vilja sitja út með bjórinn sinn að kvöldi til. En, svo kom reyndar að því að það slökknaði alveg á mér, enda búin að vera góð keyrsla.