Amsterdam – Berlín

Alli hafði farið út á flugvöll kvöldið áður, Gústi og Matti voru að fara í flug og við vorum búin að kveðja Dísu & Magga og Þórhall, sem tók reyndar flug til Berlínar.

En við tókum rútu upp á Schiphol og sóttum alveg ágætan bílaleigubíl, Renault 308.

Aksturinn tók heldur lengri tíma en við höfðum gert ráð fyrir, vorum aðeins að velta fyrir okkur að ná að sjá Ísland – Kasakstan, þó ekki væri nema í símanum.. en fyrsti hluti ferðarinnar, frá Amsterdam og sá síðasti tók tíma. Það tók meira að segja óratíma að finna bílastæði þegar við vorum komin á áfangastað í Berlín. En við lögðum að lokum í bílastæðahúsi rétt hjá hótelinu.

Hótelið, Days Inn, var svo sem fínt, en WiFi lélegt og takmarkað við eitt tæki á mann. Og það var ekki nóg að sýna þeim tölvupóst og staðfestingu á bókun, þeir þurftu nauðsynlega að fá pappír. Þannig að ég sendi þeim bókunina í tölvupósti, þeir prentuðu út og voru alsælir.

En það voru allir veitingastaðir lokaðir nema um það bil átján kebab skyndibitastaðir (og jú reyndar, einn McDonalds, en við teljum það valla með).

Ég var svo sem mjög sáttur, en Iðunn minna spennt með Falafel. Fórum samt snemma að sofa, einn bjór á hótelinu.

Svo var öllu verra að við vorum heldur betur útbitin af einhverjum pöddum, kláði, histasin og hydrocortison í nokkra daga.

Laugardagur, aftur í Amsterdam

Þessi dagur byrjaði með látum. Það var bankað nokkrum sinnum á herberginu hjá okkur og að lokum hringdi pirraður starfsmaður úr móttökunni, sagði að klukkan væri ellefu (sem var rétt) við þyrftum að rýma herbergið NÚNA, því við ættum bara pantað til laugardags. Ég reyndi að malda í móinn og sagði að við ættum ekki að tékka út fyrr en á morgun. En svo rifjaðist upp að við höfðum skipt um herbergi við Alla og Viktor.. og þeir áttu jú bara pantað fram á laugardag. Við náðum að leiðrétta þetta og – því miður – halda herberginu okkar. En á þeim fjórum mínútum sem það tók mig að klára málið í afgreiðslunni var Iðunn búin að klæða sig og pakka.

En, tókum síðbúinn morgunmat, röltum aðeins og einhverjar búðir og barir urðu fyrir barðinu á okkur. Iðunn lagði sig og við Alli fórum í nudd.

Um kvöldið var svo matur á Teppanyaki Sazanka á Okura hótelinu. Maggi stakk reyndar upp á að hittast í fordrykk fyrir matinn, en við vorum orðin frekar sein og ég vissi að barinn sem væri kannski hvað mest spennandi, Bar 23 væri talsvert frá miðbænum. En það vildi reyndar svo til að hann var á sama hóteli – og við þurftum aðeins að bíða eftir borðinu þannig að við náðum smátíma á Bar 23 fyrir mat.

Og mat já..

Þetta er einhver flottasta matarupplifun sem við höfum náð. Eins og Maggi orðaði það, þá er Benihana eins og bæjarins bestu í samanburðinum, kannski aðeins orðum aukið, en ekki mikið.
Amsterdam - Teppanyaki - 5

Það er eiginlega fáránlegt að reyna að lýsa matnum, heilu nautasteikurnar, humarinn, ostrur í þunnri nautasteik og ég man ekki einu sinni hvað. Þetta var svo sem ekki gefið, 110 Evrur á mann fyrir utan vín, en hverrar Evru virði. Einn úr hópnum hafði einmitt spurt daginn áður hvað þetta kostaði, lét fylgja að það skipti svo sem ekki öllu máli, en þegar ég sagði 110 Evrur svelgdist honum heldur betur á.. Ég hélt reyndar að vín væri innifalið. En sá var heldur betur sáttur, eins og við hin eftir matinn.

En vorum orðin nokkuð lúin, heimsóttum L&B Whisky barinn og fórum frekar snemma að sofa.

Föstudagur í Amsterdam

Frekar rólegur dagur, tekinn seint, smá búða og barráp í rigningunni.. enduðum seinni partinn á In De Wildeman með Viktori.
Amsterdam - Wildeman - 4

Argentínski steikarstaðurinn Luna varð fyrir valinu og svo sem ekki slæmur, en ekkert sérstakur og stóð ekki undir umsögnum.. sumir fengu fínustu steikur, Iðunn frekar slælma og mín var einhvers staðar mitt á milli.

Viktor þurfti svo að ná rútu til London og Southampton en við fórum á barrölt. Heilsuðum barþjóninum á De Bekeerde Suster og minntum á að við værum enn rosalega glöð. Svo yfir á Holland Casino þar sem Alla gekk vel, Maggi slapp þokkalega, en okkur Iðunn gekk ekki vel.. ég lét pirra mig óendanlega það sem mér fannst vera mistök gjafarans sem hafði af mér vinningshendi í lykilstöðu.

Leikdagur

Einhver ógleymanlegasti dagur ferðarinnar – og þó í fleiri ferðir væri leitað.

Við byrjuðum daginn á að grípa morgunmat og rölta yfir á Rokin þar sem ég sýndi Gústa og Matta alvöru vindlabúð. Þaðan lá leiðin nokkra metra yfir á Pilsener Club sem býður upp á stórskemmtilegt úrval af góðum bjórum. Dísa & Maggi og Þórhallur bættust í hópinn þarna.

En ekki til setunnar boðið, við áttum borð á indónesíska staðnum Kantjil & de Tijgre.. Alli og Viktor vöknuðu og rétt náðu að mæta. Bryndís hitti okkur líka á staðnum og við fengum mjög skemmtilegt úrval af ólíkum réttum.

Þaðan var haldið yfir á Dam torg þar sem við sóttum „tólfu“ treyjurnar, Iðunnar pöntun hafði ekki skilað sér, en hún fékk ómerkta treyju á staðnum. Einn bjór á Dam og svo fórum við yfir á Café Belgique þar sem við fengum okkur Kwak bjór í glasi í trékassa.

Amsterdam - Cafe Belgique - 1

Aftur yfir á Dam, einn bjór og hittum fullt af fólki.

Þaðan yfir á De Bekeerde Suster í síðasta bjór fyrir leik.. hollensk afgreiðslustúlka sagði við Viktor að það yrði nú ekki svona gaman hjá okkur eftir leikinn. Bjórinn þarna er sérstakur og eiginlega alveg frábær, einn sá allra besti sem ég fæ, sér bruggaður af staðnum.

Amsterdam - Dam - 6

En við stoppuðum þarna vegna þess að það var stutt í „metro“ lestarstöðina og tókum lest út á Amsterdam Arena og vorum mætt vel tímanlega. Við Viktor gripum einhvern rusl hamborgara, Iðunn afþakkaði og svo var gripinn meiri bjór. Steinar var mættur með fjölskylduna (aðra en Helgu) og auðvitað hittum við fullt af fólki fyrir leik. Það þarf svo ekki að lýsa leiknum, en ég held að við Maggi höfum varla haft augun af klukkunni megnið af seinni hálfleik. Við misstum í fyrstu af rauða spjaldinu, en ég sá dómarann stinga rauðu spjaldi í rassvasann, við sáum engan fara af velli, en ákváðum að telja. Og jú, þeir voru bara með 9 úti leikmenn hjá Hollendingum. Og rétt sem snöggvast sýndist okkur markvörður Hollendinga verja vítið. Svo var bara talið niður, eiginlega aldrei raunveruleg hætta, jafntefli hefði svo sem verið fínt og alltaf vorum við viðbúin því að eitthvað dytti óvænt með Hollendingum. En engin raunveruleg hætta. Og þvílíkur fagnaður. Og mikið rosalega var þetta frábært.

Holland - Ísland - 1

Iðunn og Viktor stjórnuðu svo þjóðsöngssöng í lestinni á leiðinni til baka.

Það var svo auðvitað nauðsynlegt að stoppa á De Bekeerde Suster og minna afgreiðslustúlkuna á að okkur þætti bara víst enn gaman! En hún var búin á vaktinni… Kiddi (On Waves) og félagar voru þarna og buðu upp á bjór.

Nú var Iðunn aftur orðin svöng og við stoppuðum á kebab stað á leiðinni á Dam torg, sem Iðunn kunni hvort sem er ekkert að meta. En vorum orðin frekar sein á Dam torg, hittum Helga og Góu.. Árna, Bryndísi (aftur), Steinar (aftur), Kalla og fullt af fólki. En flestir sem við þekktum voru á hliðarbarnum, þeas. ekki á EuroPub. Og gamall nágranni sem þurfti mikið að ræða við mig, endurtók megnið.. og varð ansi sár ef ég vogaði mér að sinna fjöldskyldu og ferðafélögum.

Reyndum að kíkja eftir öðrum stað, en megnið var lokað og fórum heim milli tvö og þrjú.

Til Amsterdam

Mætti aðeins í vinnuna fyrir hádegi, svo heim og Matti sótti okkur Iðunni í flugið til Amsterdam. Við gripum Alla upp á leiðinni og mættum í bjór og hádegismat í Keflavík. Skemmtilegar breytingar á flugstöðinni, en rosalega væri vel þegið að þeir væru ekki með þessar hallærislegu flækjur með internet tengingar.

Hvað með það, lentum í Amsterdam um hálf tíu og fyrirfram pantaður leigubíll mætti ekki á staðinn. En við gripum næsta bíl sem við fengum, sá kom ekki töskunum okkar allra fyrir í „skottinu“ og opnaði einfaldlega annað „skott“ að framan.. ég spurði hvar vélin væri.. engin vél, Tesla. Rándýr bíll, um 15m, en sennilega sá flottasti sem ég hef setið í..

Í öllu falli þá beið Viktor okkar á Best Western Leidse þar sem hann ætlaði að fá að vera í herbergi með Alla. Rétt náðum að borða á ítölskum stað á móti Satellite, svona la-la, en aðallega fegin að fá mat. Vorum búin að fá einhver skilaboð frá vinum sem voru staddir á Dam torgi, en boðin gömul og enginn svaraði strax.. þannig að við ákváðum að finna bar, Hoopman, írskur bar, með ágætis úrval af belgískum bjórum. Við ákváðum að þetta yrði „barinn okkar“ á Leidseplein. En það fóru svo ekki allir nægilega varlega þannig að við fórum til þess að gera snemma upp á hótel. Þar skiptum við Iðunn á herbergi við Alla og Viktor, þeir voru með hjónarúm en við með tvö stök – þeas. fyrir skipti.

Amsterdam - Leidseplein - 2