Garður, flakk, naut, sirkus, hljómleikar og bjór

Byrjuðum á að rífa upp rætur 10 trjáa úr garðinum, nokkuð sem hafði staðið lengi til, og skotgekk með hjálp bílsins.

Ingólfshátíð - 1
Þá niður í bæ að kíkja á Ingólfshátíðina á Austurvelli,hittum Monicu og dætur – og þaðan á matarmarkaðinn í Fógetagarðinum með Krístínu og Ægi Mána. Létum eitt smakk nægja og einn bjór frá Skúla.

Fyrri áætlanir um að kíkja í grill með gögnuhóp Staka gengu ekki upp.

Þaðan heim að elda nautalund.. og ég held svei mér þá að ég hafi aldrei fengið betri nautalund, keypti í „Þín verslun“ í Seljahverfi og smellhitti á eldunartímann.. verst að ég get sennilega aldrei endurtekið þetta.
Nautalund 1 Nautalund 2
Við fórum svo með Assa & Stínu á Skinnsemi sýningu Sirkus Ísland á Klambratúni. Skemmtileg sýning og frábært framtak.

Við röltum við niður í bæ eftir sýning, fengum okkur bjór á Ob.La.Di. Ég mæti þarna allt of sjaldan, skemmtilegur staður og alltaf lifandi tónlist – Björgvin, Pálmi og Tommi voru að spila eitthvað sem þeir kölluðu kokteilmúsík, heldur betur ekkert að því. En við entumst reyndar ekki lengi, enda frekar lúin eftir gærkvöldið og þurftum þar fyrir utan nauðsynlega að prófa Mikkeler bjór fyrir svefninn.

Horfðum svo á bardaga frá Las Vegas fyrir svefninn.

Battl, eða ekki battl

Við Iðunn kíktum á smá barrölt, fengum frábæra undarlega bjóra á Skúla og „venjulegan“ bjór á American Bar þar sem við hittum Birnu og Skúla. Við lukum svo kvöldinu á Paloma.. Andrés, Helgi, Þóra, Kristín, Hekla, Sylvía og auðvitað Salvör…

Á Paloma var Guðjón, sonur okkar, að keppa í „þungavigar“ battl keppni við Marlon Pollock eftir battl-keppni kvöldsins.

Battl keppnin sjálf var frekar misheppnuð, afspyrnu vont hljóðkerfi/míkrófónar kom í veg fyrir að hægt væri að greina orðaskil og til að koma örugglega í veg fyrir að nokkur gæti heyrt hvað „battlarar“ voru að segja, þá var spiluð hávær tónlist undir! Eða réttara sagt yfir! Afsakið, en hvaða dómsdags rugl er í gangi?

„Battl“ kvöldsins var svo milli Guðjóns og Marlons Pollock. Þeir voru báðir klárlega mörgum mílum í „battli“ á undan keppendum í keppninni sjálfri – og sem betur fer var búið að slökkva á tónlistinni. Eða kannski var það ástæðan fyrir að þeir komu svona miklu betur út..

Fyrir minn smekk var Marlon betri í fyrstu umferð en Guðjón átti hinar þrjár. Einhverra hluta vegna ákvað dómnefnd samt að Marlon hefði unnið – smá DejaVu af fáránlegum Morfís úrskurðum – sá ekki betur en að því barnalegri sem brandararnir voru, því betur virtist dómnefndinni líka..