Jarðarför

Tengdapabbi var jarðarður frá Áskirkju í dag. Athöfnin einstaklega vel heppnuð og einsöngur Gissurar Páls ógleymanlegur. Mikið fjölmenni, á fimmta hundrað skilst mér.. og gott að sjá alla vinina, kunningjana og fjölskylduna.

Tony og Richard komu frá Englandi og mættu með okkur í Austurbrún í léttan mat.

London, Manchester, Birmingham og London

Við Iðunn höfðum fyrir nokkrum mánuðum skipulagt ferð til Manchester.. Hugmyndin var að kíkja á StrummerCamp, sem Júlíus Ólafsson hefur mætt reglulega á og sagt ómissandi – og síðan mögulega kíkja til tengdaforeldranna á Spáni, ef svo færi að þau yrðu í íbúðinni á Benalmadena. Þá spillti ekki fyrir að ég gat fengið miða á lokaleik Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, á móti Southampton, leikur sem á þeim tíma hefði getað verið leikurinn þar sem þeir tryggðu sér meistaratitilinn. Tommi, spilar með mér fótbolta á hverjum mánudegi, er formaður Manchester City klúbbsins, var að fara og gat bjargað miða.

Þannig að við bókuðum flug út, en ekki heim.

Magnús, tengdapabbi, var síðan orðinn það veikur að útséð var um að hann kæmist til Spánar. Þá datt það í systkini mín og „mágfólk“ að fara til Birmingham á hljómleika Paul McCartney.. og vildu fá okkur með. Við vorum ekkert sérstaklega spennt, höfðum reyndar séð hann í New York 2011 og verið mjög ánægð, en óþarfi að fara aftur og óþarfi að fara margar ferðir. En svo kom í ljós að hljómleikarnir voru á miðvikudegi, strax eftir helgina í Manchester þannig að við ákváðum að taka lest frá Manchester til Birmingham og mæta á hljómleikana með þeim.

Þá var spurning um að komast heim, ekki vorum við að fara til Spánar. Við bókuðum flug frá London um helgina og keyptum miða á söngleik sem byggður er á lögum Kinks, Sunny Afternoon.. sá fær mjög fína dóma og er talað um hann sem besta nýja söngleikinn í West End. Þá var á bak við eyrað að kíkja á úrslitaleikinn í enska bikarnum, jafnvel að draga Viktor með frá Southampton, svona ef við fengjum miða.

Þetta riðlaðist svo allt.. Magnús, tengdapabbi, datt og brotnaði illa og varð talsvert veikari í kjölfarið. Viktor ákvað að drífa sig heim og var ekki lengur á Englandi. Við vorum á báðum áttum að fara, Palli & Anna voru í París og Sæunn & Friðjón á Ítalíu. Daginn áður en við áttum bókað flug út virtist hann eitthvað hressari og læknirinn talaði um að það gæti verið mjög stutt eftir – eða það gætu verið einhverjar vikur. Við ákváðum að fara en fluginu hafði verið frestað um tvo tíma og svo hálfan í viðbót. Áður en við lögðum af stað til Keflavíkur könnuðum við stöðuna hjá Helga, sem hafði gist hjá honum.. Þá var mjög af Magnúsi dregið og við ákváðum að fara upp á spítala. Við vorum svo rétt lögð af stað þegar hann lést. Ekki gátum við farið út og vorum lengi að vandræðast með hvað við ættum að gera. Það var auðvitað mjög erfitt að fara frá.. en Palli og Sæunn voru að koma heim, þetta hafði verið erfiður tími, við vorum búin að bóka ansi mikið og mæla okkur mót við marga.. Það var í sjálfu sér ekki mikið að gera fyrst um sinn og að mörgu leyti gott að komast aðeins frá. IcelandAir tóku okkur vel og við gátum flogið til London og tekið lest þaðan til Manchester.

Eftir að hafa skipt um skoðun nokkrum sinnum ákváðum við að fara út.

Við flugum til London, tókum lest inn á Paddington, fengum okkur snarl og bjór – þaðan til Manchester. Við vorum komin inn á hótelið okkar, Arora, um sex leytið. Fyrsta flokks hótel og við fengum alvöru nautasteik á veitingahúsi staðarins, 24 minnir mig að það heiti. Við komumst loksins á StrummerCamp um níuleytið og sáum The Men They Couldn’t Hang, ekki verra að Slim úr Pogues var gestur hjá þeim. Þeir voru verulega flottir og ekki spillti að þeir enduðu á BankRobber og buðu gestum á svið.. nokkuð sem Iðunn lét ekki bjóða sér tvisvar.
Strummercamp - 2
Við hittum þá eftir hljómleikana og rifjuðum upp þegar þeir komu til Reykjavíkur 1989. Þá var Iðunn ólétt og langt gengin með Viktor. Þeir tileinkuðu henni („that heavily pregnant woman“) lagið Colours, sem er sennilega þeirra þekktasta lag. Ekki mundu þeir sérstaklega eftir þessu, né að hafa hitt okkur í Klúbbnum sáluga kvöldið eftir. Ég sagði þeim að „barnið“ væri nú 25 ára og stundaði nám við Háskólann í Southampton. Þarna var ég að spjalla við Paul Simmonds (gítarleikarar og meira). Hann svaraði, „já, ja, ég samdi lagið og ég vinn í Háskólanum í Southampton“..

Strummercamp - 6

Önnur hljómsveit spilaði seinna um kvöldið á minna sviðinu og var nokkuð góð, en man ekki hvað hún heitir.

Daginn eftir byrjuðum við að hitta Manchester City aðdáendur á Thistle hótelinu í fyrsta bjór dagsins.. Tommi var kominn í ekta „City“ jakkaföt.

Manchester - 1

Hallur og Viðar og fleiri voru þarna einnig að hita upp fyrir leikinn. Iðunn ákvað að fara í búðarrölt á meðan ég fór á völlinn.. reyndar eftir að við kíktum í Whisky búðina í bænum og síðan á Sinclair Oyster barinn.

Manchester - 6

Ég varð sem sagt viðskila við City aðdáendur, en komst klakklaust á völlinn. Sætið var á fremsta bekk fyrir miðju, en leikurinn hálf daufur.

Manchester City Southampton - 2

Iðunn fann ekki Primark fyrr en búðin lokaði, jafnvel þó við höfum labbað fram hjá henni á leiðinni frá Thistle niður í miðbæ.

Við fórum á Dmitri’s, fengum frábæra smárétti, en ákváðum að nenna ekki að bíða eftir barnum á Hilton, þrátt fyrir flott útsýni af 23 hæð. Við drifum okkur á StrummerCamp og náðum Ruts DC í frábærum gír.. Ég spjallaði aðeins við þá eftir hljómleikana. Þeir eru virkilega spenntir að komast til Íslands, höfðu verið bókaðir á Secret Solstice, en svo hafði verið hætt við, án þess að þeir vissu hvers vegna. Iðunn hitti svo náunga sem hafði átt ömmu, Doris Parkinson, sem notaði sömu frasana og amma Iðunnar, Doris Parker.

Strummercamp - B5

Við kíktum að lokum á Casino, settum sitt hvor 40 pundin undir, Iðunn kom út með 140 pund en ég tómhentur, eftir að hafa ákveðið að veðja á lit í síðasta spili og leggja allt undir (var í smá plús) – bara til að sjá tvo meðspilara fá sama langsótta fulla húsið.

En, StrummerCamp stóð fyrir sínu, þó við næðum ekki mörgum hljómsveitum í þetta skiptið.

Á mánudegi héldum við með lest til Birmingham, hittum Öggu & Magga og Kidda & Gunnu á brautarstöðinni og röltum inn á hótel eftir einfaldan pöbbamat.

Birmingham - 3

Við fundum ítalskan stað rétt hjá hótelinu þeirra og fengum svo sem allt í lagi mat. Jú, Iðunn keypti ljósblátt Ukulele. Þriðjudagurinn fór í búðarráp og nokkuð vel heppnaða argentínska steik á Fiesta del Asado.

Á miðvikudeginum fórum við í bátsferð eftir einu síkinu.. svo sem allt í lagi, en aðallega girðingar og tré.

Birmingham - 18

Við fengum okkur svo misvel heppnaða (eða mis misheppnaða) hamborgara seinni partinn áður en við fórum á hljómleika Paul McCartney. Hann kann þetta svo sem ágætlega og gerði mjög vel, en hvort hann kom okkur meira á óvart 2011 eða hvort lagavalið var betra þá.. nú eða hvort hann var einfaldlega í betri gír veit ég ekki – en þetta var mjög fínt og ekki undan neinu að kvarta.

Paul McCartney - 7

Eftir hljómleikana fórum við á hótelið þeirra, Jury’s Inn, þar sem Iðunni tókst að líma saman á sér hendurnar við að reyna að líma gervinögl á puttann..

Flugi þeirra systkina seinkaði svo á fimmtudag og við ráfuðum stefnulaust um bæinn.. drukkum bjór og fengum okkur snarl.

Birmingham - 5

Um kvöldið fórum við Iðunn á Adam’s, sem frábær veitingastaður. Aðeins er hægt að velja á milli 5 rétta og 9 rétta matseðils.. með eða án víni. Við pöntuðum níu rétta seðilinn með víni og bættum þeim tíunda við – og þeir bættum fjórum við til að smakka. Iðunn var orðin svo södd þegar kom að súkkulaðinu með kaffinu að hún bað um „doggie bag“ fyrir síðasta molann. Það stóð ekki á viðbrögðunum, þeir áttu konfektmola-doggí-bag.

Við kíktum á Casino eftir matinn, skráðum okkar í mót án þess að hugsa til henda, Iðunn datt snemma út en ég komst á lokaborðið en datt fljótlega út í tíunda sæti.

Daginn eftir fórum við til London, vorum ekki hrifinn af verðlagningunni i breska lestarkerfinu. Hefðum við keypt miða daginn áður var miðinn á 17 pund, fyrir klukkan tvö var hann á 32 pund en við mættum rétt eftir tvö og þurftum að borga 50 pund.. eða missa af leikhúsinu. Fyrir leikhúsið fórum við á ítalska staðinn Piero’s & Pavilion við Poland Street og fengum ekta ítalskan mat. Eigandinn, eldri ítali, sagði okkur að Ray Davies hafi oft komið við eftir æfingar á leiksýningunni. Iðunn ákvað að reyna aftur að líma nögl og tókst auðvitað að festa hendurnar saman aftur. Í þetta skipti náði hún að losa hendina frá en nöglin stóð út í loftið.

London - Iðunn - nögl

Söngleikurinn, Sunny Afternoon, er nokkuð vel heppnaður.. satt að segja held ég að Iðunn hafi jafnvel haft enn meira gaman af honum en ég. Kannski voru nokkur hóp söng / dans atriðin alveg á mörkunum fyrir mig. En ég þekki sögu Kinks ágætlega og gaman að sjá hana sagða með lögunum þeirra, þeas. lögin eru notuð til að koma sögunni til skila. Og tónlistin bara nokkuð vel heppnuð.

Við fengum okkur nokkra bjóra eftir sýningu, meðal annars á Casinoinu við Tottenham Court Road sem var „áfast“ (innangengt) við hótelið okkar.

Laugardagurinn leið fljótt í búða- og barrápi. Fórum svo á Freemasons Arms í Covent Garden að horfa á Arsenal – Aston Villa í úrslitum enska bikarsins.

London - Freemasons Arms - 2

Það var engin leið að fá miða á völlinn undir 100.000 krónum og það var jafnvel uppselt á skjá sýningu á Emirates. En það var fín stemming þarna, frábær leikur og barinn er að mér skilst aðalbar Arsenal aðdáenda í mið London.

Um kvöldið fórum við svo á indverska veitingastaðinn, Veeraswamy við Regent Street. Frábær matur, en full stórir skammtar, jafnvel fyrir mig. En við létum þetta svo nægja, enda stóð til að hitta Tony og Helen á sunnudeginum.

Það gekk eftir, þau komu til okkar og við fórum á markað við Spitalfields.

London - smábíll - 1

Iðunn keypti nokkra kjóla og við fengum okkur breskan pöbbamat.
London - 7

Ég gat svo boðið bjóráhugamanninum Tony upp á Einstök Pale Ale á barnum á hótelinu okkar, St. Giles.

London - 8

Heimferðin var svo sem ekki viðburðarík, leigubíll á Victoria, Gatwick Express til Gatwick og flug heim þar sem Viktor beið okkar.