Fógetagarður, Ob-La-Di …

Fórum á flakk… byrjuðum á matarhátíðinni í Fógetagarðinum, þar sem við hittum Brynju. Við fengum eiginlega bara nokkuð góðan mat, þorskurinn frá Kex kannski bestur. Kristín hitti okkur svo undir lokin, rétt náði í mat því flestir staðirnir lokuðu fyrr en hafði verið auglýst.

Fógetagarðurinn 1

Þaðan yfir á Micro Bar, sem er óneitanlega skemmtilegur bar, en allt, allt of dýr.

Yfir á Austurlandahraðlestina þar sem við fengum okkur smárétti.. allt í lagi, en alltaf pirrandi þegar maturinn er ekki almennilega heitur og rauðvín hússins ódrekkandi.

Svanhildur hringdi og bauð okkur í heimsókn, sem við þáðum, en fengum okkur eftirrétt á Badabing ísstaðnum, sem var eiginlega bara nokkuð góður þó ég sé alltaf minna og minna fyrir ís.

Í öllu falli náðum við til Svanhildar & Jim og sátum þar að sumbli ásamt fleiri gestum, ýmist með Mojito eða bjór, sem ég lét duga.. þó þetta hafi nú verið einhver besti Mojito sem ég hef smakkað. Rétt undir miðnætti – eftir að hafa tekið nokkurs konar vítaspyrnukeppni þar sem hundurinn þeirra (Lukka?) var í óskilgreindu marki – fórum við á Ob-La-Dí Ob-La-Da á Frakkastígnum… mjög flottur lítill bar sem býður upp á lifandi tónlist. Í þetta sinn voru Homo and the Sapiens að spila.. Andrea var gestur hjá þeim í nokkrum lögum. Mjög flott hljómsveit og einstaklega „vel-spilandi“, ef ég má nota útjaskaðan frasa.

Þarna var klukkan eitthvað farin að nálgast þrjú og enn einu sinni höfðum við ekki vit á að fara heim (nema Jim) heldur fórum við Iðunn, Brynja, Kristín og Svanhildur á Ölstofuna og vorum, eins og stundum áður, allt of lengi.