Ísfötur og ísföt

Þá er Iðunn búin að taka svokallaðri ísfötu-áskorun frá frænku sinni.

Ég veit að það dettur engum sem þekkir mig í hug að skora á mig, gamlan fúllyndan manninn sem aldrei vill taka þátt í neinu, tekur aldrei þátt í samsöng og er yfirleitt ekki mikið fyrir svona „hópefli“ (eða hvernig á að flokka þetta).

En svo ég skýri nú aðeins betur fyrirfram, ef einhver sem þekkir mig ekki vel skyldi láta sér detta í hug að senda mér áskorun, þá er ég ekki að hafna vegna þess að mér þyki lítið til viðkomandi koma heldur…

Ég gæti örugglega styrkt góðgerðastarsemi meira og betur, við styrkjum eitt og annað, meira þegar við höfum eitthvað aflögu, annars minna.

Ég auglýsi helst ekki hvað ég er að styrkja. Bæði er ég svo gamaldags að mér finnst það ekki við hæfi.. og svo fylgir því gjarnan mikil ásókn annarra sem eru að leita eftir styrkjum.

Ég efast um að ég myndi styrkja sérstaklega þetta málefni, það eru að minnsta kosti nokkur málefni sem ég set ofar á lista.

„þetta málefni“ já.. einmitt, ég hef ekki hugmynd um hvaða málefni þetta er, vegna þess að það gleymist í öllum látunum. Hvernig get ég þá sagt að ég vilji frekar styrkja önnur? Kannski vegna þess að ég held að ég hefði tekið eftir ef þetta væri þess eðlis að það færi ofarlega á lista hjá mér. Og þá þyrfti engar fötur. [PS. jú, nú veit ég að þetta er MND, sem ég skal glaður styrkja]

Og þori ég að segja? Þessi aðferð, sem byrjar þannig að fína og fræga fólkið er að leika sér að söfnun, með athygli á sjálfum sér og einhverju sem er kannski frásagnarvert fyrir þá sem hafa áhuga á viðkomandi, en tengist málefninu nákvæmlega ekki neitt… já, hún er ekki fyrir mig.