Brugge

Annar dagur í stefnulaust ráp. Súkkulaði safn varð á vegi okkar, og svo eðal bjór á 400 bjóra staðnum ( sem ég man ekki hvað heitir, en skal setja inn).

Kíktum í Brugse Zot bjór verksmiðjuna og fengum okkur bjór, án þess að fara í kynnisferð.

Um kvöldið var lokað á veitingastaðnum sem við höfðum valið og eftir smá vandræðagang enduðum við á sama stað og á sunnudagskvöldið. Fínn matur.

Röltum svo um garða og skoðuðum tjarnir, svani og byggingar. Reyndum einn vínbar (one) sem auglýsti vínsmökkun… en átti bara eina hvítvínstegund og ekkert rauðvín.

Annars allt lokað snemma, meira að segja bjórsmökkunarbarinn sem á bara að vera lokaður eitt kvöld í viku, hann var lokaður annað kvöldið í röð!

Kannski situr svolítil ímynd af Brugge sem eldri borgara ferðalanga staður og staður fyrir þá sem hafa komið langt að í skipulögðum ferðum. Mikið af hópum sem voru teymdir áfram af fararstjóra, meðaladurinn talsvert hærri en hjá okkur Iðunni.

Brugge

Fyrsti dagur í Brugge fór eiginlega bara í stefnulaust ráp um borgina. Sem var fínt. Hádegissnarlið á líbönskum veitingastað var fínt, kræklingurinn um kvöldið allt í lagi, en àkváðum að prófa vöfflur í eftirrétt.. allt of sætt og ekkert spennandi.

Settumst um kvöldið inn á einn undarlegasta bar sem við höfum séð, beint á móti hótelinu.. Alls kyns drasl (bókstaflega) á mörgum hæðum en örfáum fermetrum. Leikfangabílar, lampar, föt, veggmyndir, ljósmyndir, myndavélar, hattar, bangsar… “skran” hét þetta víst einu sinni. Það eina sem var innan við 30 ára var risa ljósaskilti á fyrstu hæðinni með fljótandi auglýsingu um að meira væri að finna á efri hæðum. Barinn tók 12 manns með góðu móti. En auglýsti samt lifandi tónlist um helgar. Tónlistin já.. Dúndrandi diskó allan tímann frá “gullöld” diskósins.

Annars er Brugge nokkuð skemmtileg. Bjórbarinn og bjórverslanir bókstaflega á hverju strái. Og fyrir hvern þeirra eru 3 búðir að selja súkkulaði.. Þar fyrir utan púðar, blúndur, lampar og ætli-sé-ekki-rétt-að-segja hannyrðir.

Maastricht – Brugge

Fórum frá Maastricht eftir alvöru morgunmat. Ákváðum að sleppa króknum til Chimay, enda svolítið langt úr leið og ekki víst hversu mikð var að sækja þangað í sjálfu sér..

Tókum óþarfa krók inn í Brussel og þegar við komum til Brugge ákvað leiðsögukerfið að senda okkur beint út aftur. Við vorum að prófa eitthvert nýtt kerfi sem á ekki að þurfa að sækja kortin aftur og aftur.. Búin að gefast upp á ViaMichelin og iOs Maps á iPad.

Google maps virðist langbesta kerfið, en er stöðugt að sækja gögn, sem er dýrt – og tapar áttum ef ekki er netsamband.

Þannig tókst okkur að vera þrjú korter að finna hótelið eftir að við vorum komin til Brugge.. Reyndar var ég ragur við að keyra götur þar sem gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur gáfu okkur illt auga – eða beinlínis skömmuðu okkur. Þegar við náðum loksins á hótelið sagði stúlkan í afgreiðslunni að við ættum bara að keyra samt..

Fundum svo nokkuð góðan ítalskan stað en létum tvo bjóra nægja á bjórsmökkunarbarnum við hliðina á hótelinu.

Maastricht

Gistum á NH hótelinu í Maastricht. Sennilega gerir hótelið út à ráðstefnur og viðskipti. En bjòrinn fínn, maturinn frábær, sturtan hálf biluð WiFi alls ekki að virka, en morgunmaturinn alvöru.

Fórum á bæjarrölt. Bjór, markaður, bjór, búðarráp, bjór, búðir, bjórhátíð, skemmtileg fatabúð, TakeOne bjórbar…

Dottuðum aðeins og misstum af Harry’s ( veitingastað), ákváðum að fara á Flo, lítið spennandi, mjög dýrt, vont rauðvín frá Maastricht..

Fórum svo á Take One og sátum í góðu yfirlæti fram eftir, drekka alls kyns bjóra sem ‘vertarnir’ voru naskir að stinga upp á.. Reyndum að fylgjast með kosningunum heima, en allt dautt. Fengum skilaboð að útsending Rúv gengi ( vægast sagt) ekkert sérstaklega vel.