Blam!

Fórum á Blam! í Borgarleikhúsinu með Assa & Stínu og Krissa & Rúnu.

Verð að játa að ég man varla eftir sýningu sem mér hefur leiðst meira á – og var hún þó stutt. Ég geri ekki lítið úr frammistöðu leikaranna, mikill kraftur og vel gert. Mér fannst bara einfaldlega ekkert varið í innihaldið.. á meðan Iðunn var mjög sátt. Svona getur maður nú verið skrýtinn…

Og, heim í Kaldasel í nokkra bjóra á eftir.

Punk 2014 í Molanum og uppskeruhátíð

Punk 2014 - Fræbbblarnir 2 - lítilSeinni hluti Punk 2014 hljómleikanna var í Molanum í dag.. við byrjuðum, svo kom Skerðing, Bugun, PungSig, Fjöltengi og Dossbaradjamm.

Satt best að segja var nú frekar fámennt, en rættist aðeins úr þegar á leið.

Þreytan var aðeins farin að segja til sín og ég tók smá hlé áður en ég fór að hitta fótboltahópinn í uppskeruhátíð vorsins. Keila í Egilshöllinni, kaldur ofsteiktur hamborgari og diskóljós yfir keilunni voru ekki alveg fyrir mig. Svo kom upp eldur og eftir drykklanga stund var okkur bent á að fara út, og eftir smá stund til viðbótar gátum við haldið áfram.

Postular - uppskera - maí - lítil

Þaðan lá leiðin til Þórhalls (og reyndar Jóa) þar sem farið var yfir tölfræði, „hringurinn“ tekinn og myndband Sævars af vorönn skoðað. Kvöldinu lauk svo með póker, nánast að venju.

 

Tvö vinnusamkvæmi

Mætti í tengslanetssamkvæmi (eða eitthvað svoleiðis) hjá Símanum í Hörpu.. vel heppnað og flottar veitingar- og gaman að ná fólki utan vinnu – og eiginlega ekki hægt annað en að dást að útsýninu.

Harpa - útsýni 2 - lítil

Þaðan í Las Vegas partý með vinnufélögum Iðunnar þar sem ég afsannaði regluna um að maður verði að kaupa miða til að vinna í happdrætti, ég vann nefnilega mat fyrir tvö á Grillmarkaðnum án þess að kaupa nokkurn miða! Enduðum svo í einkasamkvæmi hjá Rögnu eitthvað fram eftir nóttu.

Punk 2014

Dagurinn fór í tvö viðtöl á Rúv, fyrst hjá Óla Palla og svo fyrir kvöldfréttir.

En aðal haus verkurinn var að búið var að fella niður flugið sem Glen átti morguninn eftir. Hann spilar í London á föstudagskvöld og þurfti nauðsynlega að komast út.. helst til Heathrow og helst ekki of snemma. Löng bið á línunni hjá IcelandAir skilaði loksins því að hann yrði bara sjálfur að kaupa farseðil og fengi hann greiddan. Við keyptum rándýrt sæti hjá Wow og leit út fyrir að það yrðu vandræði að koma gítarnum með. Nóg um það…

Þá var ekki ljóst hvernig færi með upptökur fyrir Rás 2, eitthvað vorum við Óli Palli, Bjarni hljóðmaður og fleiri að tala í kross.

Svo ákváðum við að bjóða hljómsveitunum og Glen heim til okkar í grill eftir „sándtékk“ og fyrir hljómleika.. frekar en að vera að skipta liði og finna veitingastað. Gummi stýrði matseldinni, sem hann, Steini og Assi sáu um.. og gott ef Helgi lagði ekki hönd á skeið. En gaman að gera þetta svona, skemmtileg tilbreyting.

En fólk mætti seint, þannig að við byrjuðum aðeins seinna og breyttum röðinni, Q4U byrjuðu, svo kom Glen og við Fræbbblar enduðum. En þetta var verulega vel heppnað kvöld.. eins og þeir vita sem mættu.

Matlock 2 - lítil

Matlock mættur

Sótti Glen Matlock til Keflavíkur seinni partinn og kom honum á hótel.

Við fórum svo með honum á Dill um kvöldið í sjö-plús rétta matseðilinn. Einn af uppáhaldsveitingastöðunum okkar, frumlegir og skemmtilegir réttir.

Þá var ekki leiðinlegt að eyða kvöldinu með Glen, hefur frá einu og öðru að segja.. og staðfesti að ég var nú ekki að fara með neitt fleipur 1980.

Iðunn - Matlock - lítil

Afmæli

Þá erum við Iðunn búin að vera gift í 31 ár. Heldur betur góður tími.

Tengdaforeldrarnir, Magnús og Sylvía eiga sama brúðkaupsdag og við höfum farið út að borða með þeim þegar þau hafa verið á landinu. En síðustu ár eru þau gjarnan úti á Spáni á þessum tíma þannig að við fórum tvö út að borða.

En við fórum á Vox og fengum góðan og skemmtilega samsettan mat – og þjónustan fyrsta flokks. Tókum árstíðamatseðilinn, sem er reyndar ekki alveg ókeypis.. og kannski eiginlega full mikið af hvítum vínum fyrir okkar smekk.

Manchester, heimferð

Vaknaði eftir rúmlega tveggja tíma svefn og næsta mál af komast upp á flugvöll. Bókaður leigubíll klikkaði en við fengum fljótlega bíl og vorum mættir að við héldum tímanlega.

En endalaus bið vegna vökva í handfarangri, bæði hjá okkur og öðrum, varð til þess að ég rétt náði vélinni. Það hefði kostað mig 30 pund aukalega að setja töskuna í venjulegan farangur, var aðeins of seinn að panta á vefnum, en eftir allan þvælinginn með vökva og endalausa biðina þá var mér sagt að hún færi nú samt með venjulegum farangri.

Ég náði lítið að sofa í vélinni en aðrir náðu að sofa ferðina af sér.

Víðir leigubílstjóri tók svo á móti okkur og bjargaði okkur heim..

Manchester, Leeds og Liverpool

Vöknuðum eftir örfárra tíma svefn í vel þeginn og glæsilegan morgunmat á Premier Inn. Miðarnir okkar fundust ekki fyrr en í annarri tilraun. Og leigubílstjórinn neitaði að standa við fast tilboð um verð á ferðinni til Leeds. En annar leigubíll sveif að og bauðst til að taka við á umsömdu verði. Við skröltum í demparalausum leigubílnum til Leeds og vorum komnir tímanlega fyrir leik. Það tók reyndar ansi langan tíma að panta fyrsta bjór, en það tók aftur engan tíma að koma honum niður.

Elland Road
Elland Road

Stemmingin á leiknum var skemmtileg og leikurinn opinn og bauð upp á fullt af færum. Þarna var ég að sjá mitt lið í enska boltanum, Derby County, spila í fyrsta skipti. Leiknum lauk svo með 1-1 jafntefli, enda skipti leikurinn engu máli fyrir liðin. Gripum fisk á fish’n’chips stað á móti vellinum, mjög góður en eitthvað var ég uppþembdur eftir þetta fram eftir degi. Næsti leigubíll flutti okkur til Liverpool.. við náðum (flestir) að dotta aðeins á leiðinni og vorum komnir tímanlega fyrir leik. Liverpool - lítil Ákváðum að rölta síðasta spölinn og grípa einn (eða tvo) bjóra á leiðinni. En vorum mættir vel fyrir leik, þar sem Þórhallur beið okkar, enda hafði hann mætt beint til Liverpool. Goodison Park - lítil   Leikur Everton og Manchester City var stórskemmtilegur og fyrsta markið frábært. Við misstum af einu marki vegna þess að við ákváðum að mæta tímanlega í að skipta um bjór á okkur.. reyndar er bjórdrykkja á þessum völlum tilgangslaus, þetta er bragðlaust „piss“. Eftir leikinn var svo hugmyndin að fá einn bjór á meðan mesta traffíkin væri frá vellinum. Anfield - lítil Við röltum yfir á Anfield sem er tiltölulega rétt hjá, en eini sýnilegi barinn var lokaður öðrum en innvígðum. Við fundum svo okkar leigubíl sem keyrði okkur í loftköstum til Manchester, náðum að leggja okkur örstutt og síðan komið að mat.. Kvöldmaturinn var á Dmitri’s og ég var held ég heppnastur með rétti, enda komið þarna oft.. húmmus, lamb í spínati og spænskar pylsur soðnar í rauðvíni voru frábær, eggaldin með osti og grísk svínapylsa fín, en ekki í sama klassa. Við höfðum gert ráð fyrir að við þyrftum ekki að sofa fyrir flug. Ég man ekki eftir verri IPA bjór en þeim sem ég fékk á bar ekki langt frá, fótum á írska barinn Mulligan’s, þar sem var þröngt setið og dansað við ágætlega spilaða (en ekkert sérstaklega spennandi) lifandi tónlist. Þarna var ég eiginlega orðinn of þreyttur til að standa í stórræðum en við fórum samt á Casino við hliðina á hótelinu og spiluðum í rúman klukkutíma, bætti aðeins við sjóðinn en gafst upp um tvöleytið. Alli og Maggi entust fram að flugi..

Manchester, annar dagur

Manchester útsýni
Manchester útsýni

Svaf til hádegis og svo hófst smá bæjarrölt, keypti nýtt batterí í símann en fann ekkert fyrir Iðunni.. Úrvalið af bjór er fínt í gamla bænum, en stefnan var sett á að fara í „pool“. Eftir kengúruhamborgara og þvæling um allan bæ fundum við lítið annað en einhvers konar barna útgáfur af „pool“ borðum. Gáfumst loksins upp á þessu, upp á hótel að draga andann og svo á Cloud 23 barinn Hilton hótelinu. Útsýnið frábært, drykkirnir kosta sitt og mig langaði að skjóta diskótekarann.

Þaðan á argentínska steikarstaðinn Gaucho, þurfum aðeins að bíða eftir borði og vorum orðnir hálf langeygir eftir mat. Svo sem ekkert að matnum og rauðvínið stóð alveg undir (þokkalega) verði. En ég er ekki frá því að ég sé ekkert sérstaklega spenntur fyrir nautakjöti sem búið er að hanga vikum saman, og það í kryddlegi. Ekkert að þessu, en ekkert „wow“.  Matti var svo allt í einu orðinn hálf slappur en náði sér um leið og hann kveikti á að hann hafði ekki fengið einn einasta kaffibolla allan daginn, tveir espresso björguðu kvöldinu hjá honum.

Við enduðum kvöldið svo á meiri póker í Genting Casino.. náði að vinna tap kvöldsins áður upp og gott betur. En sátum helst til lengi að..

Manchester, fyrsti dagur

Hálfur postularhópurinn lagði af stað til Manchester í morgun.. Alli, Gústi, Maggi, Matti og Þórhallur.

Leigubíllinn til Keflavíkur gekk vel og fyrsti bjór tekinn tímanlega. Flugið gekk líka vandræðalaust, svo og leigubíll á hótelið og fyrsti bjór í Manchester var um þrjúleytið. Smátrölt til að ná áttum og kíkt í alvöru Whisky búð – svo dottað fyrir kvöldmat.

Um kvöldið fórum við á kínverska veitingastaðinn Yang Sing, til þess að gera rétt hjá hótelinu, og fengum kínverskan mat sem var vel yfir meðallagi. Gallinn við svona hóp matseðla, sem hafa þann kost að það er hægt að smakka margs konar rétt, er að oft koma bestu réttirnir þegar allir eru orðnir pakk saddir.

En þaðan í Casino í jaðri bæjarins og þegar við komum að hótelinu ákváðum við að kíkja á annað Casino rétt við hótelið. Við Maggi entumst til hálf sjö, ég með eitthvert tap í póker (innan marka þó) Alli með fínan gróða og Maggi í mjög góðum plús.