Hamlet

Við mættum á áskriftarsýningu á Hamlet í Borgarleikhúsinu. Við vorum óneitanlega frekar þreytt eftir helgina og eftir nokkuð neikvæðar umsagnir var alveg á mörkunum að við nenntum að mæta. En höfðum aldrei séð Hamlet og það var eiginlega skylda að mæta.

En, sýningin kom skemmtilega á óvart og var hin besta skemmtun. Ólafur Darri stóð vel fyrir sínu, sama má segja um Jóhann, aðrir svo sem mismunandi góðir, eins og gengur – í stuttu mál hélt hún athygli og ekkert að henni. Ég hef að vísu ekki séð Hamlet fyrr og hef því engan samanburð við aðrar uppfærslur.

Ef eitthvað var, þá finnst mér leikritið kannski ekki standa undir merkjum. Ekki svo að skilja að það hafi verið ómerkilegt, en ég var nú ekki að kveikja á því hvers vegna þetta er á þeim stalli sem það er. Meira að segja fannst mér sagan nokkuð götótt á köflum – en nú veit ég ekki hvort breytingar á leikritinu í þessari uppfærslu valda því eða hvort þetta er svona í upprunalegum texta.

Og jú, eitt í viðbót. Skrúðmælgi (að mér skilst) upprunalegrar þýðingar í bland við til-þess-að-gera nútímalegan talsmáta gerði ekkert fyrir mig annað en að vera ruglandi. Sama gildir um óljósa tímaramma… svona einhvern veginn hálf tilgangslaust.

Sambindishelgi

Við Sambindismeðlimir tókum, ásamt eiginkonum, langa helgi í veiðihúsi við Laxá í Kjós.

Svo sem ekki í frásögur færandi, maturinn frábær eins og venjulega – en félagsskapurinn nú kannski aðalatriðið. Coq-Au-Vin á föstudagskvöldið, spínatpasta og nautalund á laugardagskvöldið.

Við röltum í kirkju á laugardeginn og hlýddum þar á skemmtilegan fyrirlestur Gunnars Kristjánssonar um Kjósina – og fleira – í verkum Halldórs Kiljan Laxness. Þessu var fylgt eftir með kræsingum í kaffiboði að hætti Önnu, frænku Höskuldar.

Sambindi - kirkja 2 - lítil