Hljómleikar, hljómleikar og smá pool

Iðunn fékk hálfan vinnustaðinn í partý í gær.. þannig að ég fór á smá flakk með Alla, fyrst í pool í Lágmúlanum, sem gekk alveg ágætlega.

Þaðan á Gaukinn að hlusta á OjbaRasta sem alltaf eru betri og betri, en náði ekki að klára þá hljómleika – þurfti að spara leigubíla og nýta ferðir – og rauk á Rokkbarinn í Hafnarfirði. Þar voru svo þrjár hljómsveitir hver annarri betri, Casio Fatso, Morgan Kane og Dorian Gray. Nánar um það í sér bloggfærslu.

Að lokum heim í Kaldaselið þar sem samkvæmið var enn í fullu fjöri og stóð fram eftir nóttu.

Ferðaundirbúningur og leikhús

Byrjaði daginn reyndar á að sækja letistól.. en síðan fundur hjá Bryndísi til að „hita upp“ fyrir komandi skíða- / afmælisferð.

Þaðan í leikhús með stuttri viðkomu á Kringlukránni..

Sáum „refinn“ á litla sviði Borgarleikhússins. Leikurinn var í fyrsta flokki, smá hnökrar skiptu í rauninni litlu, varð jafnvel til að leikurinn varð eðlilegri fyrir vikið. Ég þurfti reyndar að fá skýringu í hléi á því hvað hlutverk einnar persónu var kallað („refabendir“), heyrði bara „refabrxksx“. Sviðsmyndin var mjög flott, þó ég áttaði mig ekki á hvað fótanuddtækið var að gera þarna.. Eina vandamálið var að leikritið sjálft er frekar „þunnur þrettándi“ – og það er jú takmörkun sem hvorki úrvalsleikur né flott sviðsmynd geta komist yfir. Ein, frekar mikið notuð, hugmynd og einhvern veginn frekar fyrirsjáanlegt og óspennandi..

Ætluðum að fá okkur einn bjór á kránni eftir sýningu en þá var búið að loka… getur það verið klókt að loka krá við hliðina á leikhúsi svona snemma? Í öllu falli þá buðu Krisssi & Rúna heim og við töluðum um mat í klukkutíma!

Uppskeruhátíð Postula

Eins og alltaf þurfum við Postular að skála fyrir árangri síðasta keppnistímabils.

Við kíktum í skotfimi hjá Skotfélagi Reykjavíkur um daginn, nokkuð skemmtilegt og ég gæti alveg fallið fyrir þessu. Gekk ágætlega með loftrifflana og tókst meira að segja að hitta miðjuna í eina skammbyssuskotinu sem við fengum að prófa.

Skotfimi - 8 - lítil

Þaðan upp um eina hæð í Egilshöllinni að horfa á Arsenal-Tottenham með bjórdrykkju og hamborgaraáti. Flottur leikur hjá Arsenal en Magga og Venna var ekki skemmt.

Svo til Arnars þar sem við sátum að sumbli, skáluðum fyrir öllu mögulegu og ómögulegu, spiluðum mini-borðtennis og enduðum á póker.