Flachau

Við náðum að lokum til Flachau á sunnudagskvöld eftir endalausan þvæling…

En óneitanlega mjög heillandi staður, hótelið frábært og öll aðstaða til fyrirmyndar.

Ég prófaði að fara í skíðakennslu í gær… og var eiginlega frekar pirraður (á mér sjálfum) að ná þessu ekki strax. Hélt að þetta væri lítið mál og myndi rifjast upp um leið.. En ætla að prófa aftur í dag..

Flachau, þriðji dagur

Ég hef ekki stigið á skíði síðan ég var eitthvað um tíu/tólf ára.. þá gömul tré skíði með bindingum og skíðabrekkan var bara brekkan heima.

En ég var nú búinn að ákveða, og lofa Iðunni.. og öðrum – að fara í kennslu og reyna að ná þessu. Mér fannst þetta eiginlega ekki geta verið svo merkilegt, mæta í smá kennslu og vera svo klár á morgun. Ég skráði mig í hóptíma hjá skíðaskóla Hermann’s Maier, leigði græjur og mætti klukkan tíu. En eftir labb á skíðaskónum yfir þveran bæinn gekk ekkert sérstaklega vel að ná tökum á þessu. Kannski voru leiðbeiningar kennarans ekkert sérstaklega hjálplegar og kannski var einfaldlega vonlaust að ná einhverju á svellinu þar sem kennslan fór fram.

Flachau - 2014 - 017 - lítil

Ég var að minnsta kosti ekki að fara á skíði á morgun.

En ég tók kláfinn upp til hópsins og fékk mér hádegismat með þeim.

Hugmyndin var svo að hitta Bryndísi og hjálpa henni að smakka freyðivín fyrir afmælisveisluna á veitingastaðnum Dampfkessel en eitthvað fórumst við á mis.

Við nýttum okkur svo margs konar gufubað í kjallaranum, sauna, ilm/eimbað, gufubað og svo var líka einhvers konar infrarautt gufubað. Það var gert ráð fyrir að gestir væru naktir í sameiginlegu baðinu, nokkuð sem við svindluðum á þegar við vorum saman, en ég lét mér í léttu rúmi liggja þegar ég mætti einn í gufu og aðrir voru á skíðum eða að dansa.

Mættum í flug fyrir níu í morgun, áttum að lenda tvö að staðartíma í Salzburg. Ekki hægt að lenda, hætt við eftir eina tilraun og flogið til Stuttgart, beðið í þrjá tíma, flogið aftur til Salzburg og reynt tvisvar að lenda… gekk ekki og flogið aftur til Stuttgart… Komin inn á lúxus hótel við flugvöllinn.

Flachau ferð, annar dagur

Við vöknuðu samviskusamlega í frábæran morgunmat á Mövenpick hótelinu í Stuttgart og röltum yfir götuna á flugstöðina. Innritunin tók nokkuð langan tíma, en það sem verra var, þegar við vorum að ljúka við innritun var okkur sagt að nokkur töf yrði á að vélin færi, myndi sennilega ekki fara fyrr en klukkan þrjú. Ekkert var sagt um hvers vegna eða hvað væri í gangi. Við fréttum eftir krókaleiðum að eitthvað hefði bilað í lendingarbúnaði og verið væri að gera við vélina.

Hópur frá Heimsferðum lagði af stað með rútum upp úr hádegi.

Við dóluðum okkur á flugvellinum, hittum fyrrum kennara Viktors, Ásdísi… og dunduðum okkur við bjórdrykkju og saltkringluát. Við vorum reyndar kölluð að brottfararhliði til fá matarmiða, sem dugðu nú varla fyrir mat, en hjálpuðu kannski til.

Flachau - 2014 - 008 - lítil

Vélin fór svo í loftið um þrjúleytið og við vorum komin á hótelið rétt fyrir sjö. Rúmlega dagur farinn til spillis. En hótelið leit vel út og lítið annað að gera en að setja farangurinn upp á herbergi, fara í kvöldmat og skipuleggja morgundaginn.

Flachau - 2014 - 009 - lítil

Hótelið, Montanara, virkaði strax vel á okkur, frábærlega staðsett rétt við „aðal“ lyftuna, starfsfólkið sérstaklega vingjarnlegt og maturinn frábær. Á köflum var maturinn reyndar full saltur, helst til mikið fyrir suma, svona af kokkurinn-er-ástfanginn styrkleika.

En almenn var morgunmaturinn mjög veglegur. Seinni partinn var boðið upp á kaffi, te, súkkulaði og hvers kyns bakkelsi.. og um kvöldið margrétta matur.

Maturinn var fjölbreyttur, bæði voru oftast fjórir til fimm réttir – og hver réttur samanstóð af mörgum ólíkum atriðum (fisk, kjöt, fugl, grænmeti, súpa). Og kokkarnir voru einstaklega frumlegir, bæði í að blanda skemmtilega saman réttum og ekki síður í nánast listrænni framsetningunni á hverjum einasta rétt. Þeir hafa sennilega fengið einhvers konar froðuvél að gjöf í eldhúsinu, því allar sósur og allar súpur voru froðukenndar – en ekki svo að skilja að það hafi verið galli á matreiðslunni.

Við héldum okkur svo við Austurrísk rauðvín með matnum sem voru alveg frá því að vera þokkaleg upp í að vera frábær. En fást ekki í búðum í Austurríki, hvað þá annars staðar.

Flachau ferð, fyrsti dagur

Lögðum af stað í viku skíða- og afmælisferð til Flachau í Austurríki. Andrés skutlaði okkur og Bryndísi & Snædísi á flugvöllinn.. við vorum alls sautján, Eva & Hörður með dæturnar Jenný og Hörpu, Jenný með dæturnar Berglindi og Silju og svo Eiríkur & Gunna með dæturnar Möllu, Hlín, Örnu og Bryndísi.

Það gekk ekki andskotalaust að komast á leiðarenda. Okkur var sagt að ekki væri víst að hægt yrði að lenda í Salzburg vegna veðurskilyrða, þoku var okkur sagt, þannig að fyrst var hringsólað og að lokum reynt að lenda en tókst ekki. Það hefði mátt vara einhverja farþegana við að ef þetta tækist ekki yrði flugið hækkað mjög snögglega… en nokkrum brá ansi illa og skýringar eftir á að þetta væri allt eðlilegt voru full síðbúnar. En… það var flogið til Stuttgart og lent þar og okkur sagt að verið væri að ganga frá rútuferð til Salzburg. Eftir nokkra bið var okkur sagt að reynt yrði að fljúga aftur til Salzburg, veður hefði batnað og þokkalegar líkur væru á að hægt yrði að lenda.

Eftir þriggja tíma bið í flugvélinni, sem liðu svo sem ágætlega við bjórdrykkju og Jagermeister í boðið Bryndísar, var lagt af stað aftur til Salzburg. Tvisvar var reynt að lenda og tvisvar var hætt við að lenda. Aftur til Stuttgart.

Skálað fyrir biðinni í Stuttgart
Skálað fyrir biðinni í Stuttgart

Þar tók við undarlega tóm bið, engar upplýsingar í boði. Eftir drykklanga stund kom tilkynning á þýsku sem gagnaðist ekki mikið. Svo kom tilkynning þar sem þeir sem voru að ferðast með börn voru beðnir um að koma á ákveðinn stað. Ekki kom fram hvernig þeir skilgreindu börn, en hvernig það snerti til dæmis hópinn okkar, við vorum að ferðast saman, sumir með börn og aðrir ekki.

Nokkrir farþeganna ákváðu að koma sér sjálfir á áfangastað, enda var áfangastaðurinn nokkru nær Stuttgart en hjá okkur.

Að lokum fylgdi flugvallar starfsmaður okkur til hótels handan götunnar, Mövenpick. Fyrsta flokks hótel og ekkert undan því að kvarta. En við fengum ekkert að vita, sennilega yrði greitt fyrir gistingu og morgunmat – en ekki kvöldmat, en starfsmaður flugvallarins vissi ekki fyrir víst. En við vorum beðin að mæta út á flugstöð klukkan 10:00 morguninn eftir.

Það var svo sem ekki mikið að gera annað en að fá kvöldmat, við Iðunn fengum alvöru Vínarsnitsel og nokkra bjóra á barnum.

Matur í Stuttgart
Matur í Stuttgart