Flachau, lokadagur

Nú var farið að snjóa og skyggni ekkert sérstaklega gott. Þau fóru þó öll að reyna að skíða en entust mislengi. Ég hafði verið að gæla við að leigja skíði, finna létta brekku og sjá hvernig mér tækist til, en ákvað að vera ekki að taka áhættu í þessu skyggni.

Við Iðunn fórum með Bryndísi á veitingastaðinn Hoagascht, sem ég hafði fundið í fyrradag. Maturinn var fínn, en spaghettiíð heldur mikið soðið í þetta skiptið. En fínasti matur og gott rauðvín. Bryndís og Iðunn fengu kaupæði og vildu kaupa nánast allt sem var notað á staðnum, við að bera fram mat og drykki, glös, sjússamæla… og ekkert sjálfsagðara. Enda sáum við á leiðinni út að þetta var allt til sölu.

Flachau - 2014 - 052 - lítil

Við náðum inn á hótel um fimm leytið og rétt náðum síðustu mínútum í leik Íslendinga og Pólverja á EM, enda nóg að sjá þær. Þaðan fórum við yfir á ApreSki barinn sem var beint fyrir utan svalirnar okkar Iðunnar og hafði dúndrað skelfilegri tónlist yfir til okkar alla dagana. En þetta var hluti af stemmingunni og við skruppum yfir til að upplifa hana. Ég entist reyndar ekki lengi, ákvað að ná nokkrum mínútum í gufu fyrir matinn.

Kvöldmaturinn var svo gala-dinner og enn einu sinni margrétta. Við leyfðum þjóninum að velja vín með hverjum rétt og hann stóð sig satt að segja nokkuð vel, sérstaklega rauðvínið með síðasta réttinum. Það var svo eftirréttahlaðborð sem við prófuðum vel og vandlega.

Eftir matinn var farið í „actionary“ sem aftur lauk með stórmeistarajafntefli.

Við sátum eitthvað fram eftir, ég náði síðustu mínútunum af Arsenal-Coventry og svo sátum við Iðunn eins og svo oft áður með vín og vindil úti á svölum.