Aðfangadagur…

Ég held að ég hafi í fyrsta skipti sleppt því að fara á flakk að bjarga einhverju þennan aðfangadag. Enda allt löngu tilbúið. Guðjón var að vinna til átta þannig að við biðum með matinn… aðallega reyktur lax, smá graflax í forrétt. Síðan dágóð bið eftir kalkúninum eftir að ofninn hafði hætt við að fara af stað í fyrstu tilraun. En við nýttum tímann til jólagjafapakkaopnana og biðum róleg. Kalkúnninn fyrsta flokks þegar honum þóknaðist að láta snæða sig, hefði kannski mátt þola einni til tveimur gráðum styttri eldun, en það er alltaf sérstaklega gott kjötið af ófrosnum kalkúna (held að þetta sé ekki ímyndun). Svo Panna Cotta í eftirrétt með einhvers konar heimatilbúinni berja- rauðvínssósu, miklu betri en íssterturnar sem við höfum verið að fá okkur í eftirrétt.