Seinni landsleikurinn…

Fór heim hálf slappur og missti af karate.. Brynja & Gauti og Unnur & Arnar & Unnsteinn komu svo að horfa á landsleikinn með okkur. Og mættu öll með hlaðið veisluborð. Leikurinn auðvitað vonbrigði, nema kannski rétt vonarglætan í lok fyrri hálfleiks. En liðið var ekki sjálfu sér líkt og ég get ekki varist að velta fyrir mér hvernig hefði farið ef þeir hefðu náð eðlilegum leik.

Ég hef aðeins verið að grínast með að nærvera forsetans hafi haft slæm áhrif, menn hafi verið dofnir eftir að hlusta á vaðalinn í honum.. og jafnvel hvarflaði sú skýring að mér að hann hafi lofað (hótað) að mæta til Brasilíu ef liðið færi áfram… En svona gamni fylgir auðvitað sú alvara að allt brot á venjum fyrir leik getur haft sín áhrif, hversu vel meint sem það er. Það má ekki mikið út af bregða þegar komið er á þetta stig, spennustigið þarf að vera nákvæmlega rétt. En Ólafur sleppir auðvitað ekki svona tækifæri til að komast í fjölmiðla og klappa sjálfum sér á bakið. Er ekki rétt munað hjá mér að þetta sé í annað eða þriðja skipti sem hann bankar upp á hjá landsliði fyrir mikilvæga leiki? Og að þeir leikir hafi tapast illa og liðin spilað langt undir getu?