Blikabikartap

Kíkti með Arnari (Framara) á „Breiðablik-Fram“ í undanúrslitum bikarsins.

Fyrri hálfleikurinn var með þeim slakari sem ég hef séð til Blika í sumar, minnti óþægilega á leikinn við Fram í deildinni fyrr í sumar. Blikar voru engan veginn nægilega vakandi í fyrsta markinu, kannski treystu þeir á að aðstoðardómarinn hefði séð rangstöðuna og vítið er með þeim ódýrari sem ég hef séð. Fínn seinni hálfleikur dugði ekki til, markvörður Fram varði hvað eftir annað vel og varnarmaður bjargaði á línu þegar á þurfti að halda… aðeins eitt mark og Blikar úr leik.

En Hólmbert fær ósk sína uppfyllta að spila úrslitaleik bikarsins, frábært fyrir hann.

Þá er bara að slá Aktobe út úr Evrópukeppninni og vinna Íslandsmeistaratitilinn…

Annars ætlaði ég að skamma Blika fyrir að samþykkja þennan leiktíma, en sé á viðtölum að þetta var ákveðið af KSÍ í óþökk Blika, átta mig ekki á hvað er í gangi…