Menningarnótt

Þetta var nú eiginlega með slappari menningarnóttum hjá okkur, kannski einhver þreyta eftir gærkvöldið.

En, við Fræbbblar spiluðum á Dillon seinni partinn. Þetta tók ansi mikla snúninga, mikinn burð langar leiðir.. Þetta er, held ég, tíunda árið sem við spilum á Menningarnótt og aldrei hefur verið vandamál að koma græjum á staðinn, en núna voru allar götur lokaðar.. öryggisástæður voru gefnar upp. Gott og vel, en það má alveg vera einhver skynsemi. Og það þarf þá að vera valkostur að nota strætó. Og það hefði verið óvitlaust að kynna þessar breytingar almennilega. Urrrr…

En spilamennskan gekk að mestu slysalaust þrátt fyrir að Assi væri fjarverandi og þrátt fyrir að talsvert ólag væri á græjum og hljóðkerfi.. við höfum sennilega spilað þetta af gömlum vana, við heyrðum til þess að gera lítið í okkur á sviðinu en þetta virðist hafa hljómað þokkalega.

En, Dillon á hrós skilið fyrir að standa að tónleikum á Menningarnótt.

Það tók svo talsverðan tíma að koma dótinu til skila, var ekki kominn aftur í bæinn fyrr en rúmlega sex. Við Iðunn fórum að finna okkur mat, Forréttabarinn varð fyrir valinu, frábær matur eins og venjulega og þjónustufólkið lipurt.

Iðunn - forréttabar - Menningarnótt - minni

Þetta tók hins vegar allt sinn tíma, enda Menningarnótt og við ákváðum að þiggja far heim hjá Andrési, í stað þess að treysta á leigubíla eða strætó. Vorum komin heim um hálfellefu… flugeldasýningin virkaði ágætlega í fjarska.