Skrýtinn dagur…

Kom heim úr vinnunni í fyrra fallinu í gær.. norska stúlkan sem veit ekki aura sinna tal og spreðar peningum eins og .. var mætt eftir að hafa verið hent út af þremur veitingastöðum og Kringlunni, betlaði rauðvín sem hún ætlaði að borga mér fyrir, en gerði ekki, pissaði hressilega á sig, fór í freyðibað með rauðvínið, kallaði okkur öll geðveik og fór.

Þá mætti ábúðarfullur ungur maður frá póstinum með ábyrgðarbréf, bað um skilríki og undirskrift – og þó ég væri alveg viss um að hann hefði ekki hugmynd um innihaldið þá datt mér helst í hug að einhver væri að stefna mér (án þess að geta ímyndað mér fyrir hvað) eða heimta að ég borgaði einhverja skuld (sem ég gat ekki ímyndað mér hver ætti að vera). Þetta reyndist þó langþráð tilkynning frá Landsbankanum um endurreikning láns, og það sem meira er, eilítið hagstæðari en ég hafði átt von á.