Löng helgi í Barcelona

Við fengum þrjá daga í Barcelona eftir siglingu.. komum að morgni laugardags og flugum heim seint á mánudagskvöld.

Hótelið okkar, Sunotel Central, var svo sem vel staðsett og ekkert sérstaklega dýrt, 10-15 mínútna ganga frá miðbænum, en ljóslítið herbergi og undarlegar rafmagnstengingar fóru aðeins í skapið á mér. Við uppgötvuðum allt of seint að það var sundlaug uppi i á þaki.

Laugardagurinn fór að mestu í rölt um bæinn, enduðum á frábærum ítölskum stað, Buoni e Cattivi, í hliðargötu af hliðargötu, í síðbúinn hádegismat. Um kvöldið fórum við á grænmetisstaðinn Teresa Carles, sem bauð upp á ágætis rétti og vingjarnlega en svolítið utan-við-sig þjónustu. Og skelfilegt loftleysi. Jonni kom pakksaddur eftir hamborgara og eftir matinn fórum við og sóttum forláta gítar sem Kassandra hafði gefið honum og fórum með upp á hótel til okkar – Jonni hafði áhyggjur af að geyma hann lengur í íbúðinni. Sátum svo á háskólatorginu eitthvað fram eftir, en entumst ekki lengi, enda dagurinn tekinn snemma.

Á sunnudeginum kom Haukur til okkar frá Manresa,  þar sem hann spilar körfubolta, þeas. yfir veturinn. Við fórum og reyndum að finna hvar foreldrar Sylvíu, Helgi og Doris, höfðu búið í Barcelona í borgarastyrjöldinni. Fundum líkast til staðinn en húsið hefur væntanlega verið rifið. Þaðan á Míró safnið sem var svo sem ágætt en mátulega merkilegt og stoppuðum á útsýnisstað yfir borgina á leiðinni niður í bæ. Þar fengum við okkur síðbúinn hádegismat á Senyor Parellada, eðal veitingastað þar sem við fengum frábæra rétti. Næsti staður var Reial torgi þar sem vinur Hauks bauð okkur upp á kaffi og bjór á veitingastað, Rei De Copes, sem hann, þeas. vinur Hauks, á. Kvöldmaturinn var á spænska veitingastaðinn La Luna og vorum ekki svikin þar, skemmtilegur veitingastaður með góðan mat. Eftir matinn fórum við niður á höfn þar sem mikil hátíð var í gangi, einhvers konar gamlárskvöld þeirra Barcelonabúa, dagur Sant Juan, með flugeldasýningu og endalausum hvellhettum.

Mánudagurinn var svo frídagur og flestar verslanir lokaðar, fórum reyndar stutt í verslunarmiðstöðina Maremagnum.. en duttum tvisvar í tapas – á Bilbao Bistro í seinna skiptið – og svo á 9granados um kvöldið, eftir að uppgötva að áfangastaðurinn Etapes opnaði ekki fyrr en klukkan átta. Við fengum ágætan mat þar en staðurinn stóð ekki undir væntingum þeirra sem vildu grænmetisrétti þrátt fyrir yfirlýsingar þjónanna um að grænmetisréttir væru ekkert vandamál þegar við vorum að ákveða hvort við ættum að borða þarna. Jonni hafði ætlað að koma með okkur en gekk illa að fá staðfestingu á fluginu, hann sagðist svo vera hættur við að koma með okkur, en reiknaði með að koma fljótlega og þá með Kassöndru. Við vorum svo rétt að koma á flugvöllinn þegar Jonni hringdi aftur og sagði að þau væru bæði búin að bóka sig í flugið með okkur.. og það gekk eftir, þau rétt náðu í flug og komu með okkur.

Flugið, með Vueling, var með þeim leiðinlegri sem ég hef lent í, enn þrengri sæti en ég á að venjast, sem betur fer vorum við Iðunn með þrjú sæti, gat aðeins dottað þegar leið á, en var einhvern veginn í hnút alla ferðina.

FB - Vefur - Barcelona - eftir siglingu - 50