Villefranche, Monte Carlo

Við fengum bara hálfan dag til að kíkja til Monte Carlo þegar skipið stoppaði í Villefranche, föstudag 21. júní… Villefranche er reyndar nokkuð heillandi bær en ákváðum að taka lestina til Monte Carlo. Að mörgu leyti gaman að koma, Bergur Máni tók einhverjar hundruðir mynda af bílum, sagan segir ýmist 200, 400 eða 700 eftir hvernig heyrnin var hjá fólki.

Við fengum okkur bjór / gos (eftir aldri) á einum veitingastaðnum, Tip Top.. bjórinn nánst gefinn, aðeins 9 Evrur, en samt skárra verð en á aðaltorginu. Við vorum rétt hálfnuð með drykkina þegar þjóninn byrjaði að reka okkur út, sagði að borðið væri pantað og að við yrðum að fara. Hann var meira að segja farinn að taka hálfkláraðar gosdósir.

Mín fyrstu viðbrögð voru að fyrtast við og fara – enda lang duglegastur og búinn með minn bjór.. en það var auðvitað akkúrat það sem þjónninn vildi. Skúli sagðist hins vegar ætla að klára bjórinn, þjónninn hefði átt að segja okkur strax ef við gætum ekki setið og klárað. Þjónninn var orðinn frekar erfiður og fara að hóta okkur, en hótunin var nú ekki að kalla á lögreglu, eins og var farið að hvarfla að okkur… með tilheyrandi málalengingum. Nei, trompið hjá honum var að tala við framkvæmdastjóra staðarins! Það var ekki beint að hræða okkur þannig að við sátum sem fastast, enda nóg af lausum borðum og enginn gesta sem átti pantað borð farinn að láta sjá sig.

Mynd að þjóninum fylgir…

MonteCarlo - TipTop þjónn